Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 445 . mál.


1180. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 13. apríl 1973, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.



    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að ganga enn lengra í að leyfa starfsemi happdrættisvéla en verið hefur til þessa og Happdrætti Háskóla Íslands veitt í fjáröflunarskyni frekari veiðileyfi á veikleika samborgaranna en þekkst hefur í íslensku samfélagi.
    Reyndar er skylt að geta þess að fulltrúi happdrættisins upplýsti allsherjarnefnd um að ekki skorti heimildir fyrir þessari starfsemi í núgildandi lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og nokkuð er síðan rekstur umræddra véla hófst. Vekja þessar upplýsingar spurningar um tilgang frumvarpsins og hvort það hafi yfir höfuð nokkra þýðingu. Að þeim forsendum gefnum að nauðsynlegt sé að afla lagaheimilda fyrir happdrættisvélunum og samtengingu þeirra vill 1. minni hluti gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins.
    Fyrsti minni hluti getur fallist á að rekstur happdrættisvélanna verði heimilaður með eftirfarandi takmörkunum:
—    Óheimilt verði að starfrækja vélarnar á vínveitingastöðum.
—    Einungis verði heimilt að samtengja vélar á sama sölustað en ekki milli sölustaða.
—    Sveitarstjórnir setji ákvæði í lögreglusamþykktir um staðsetningu vélanna og að öðru leyti um önnur skilyrði fyrir leyfisveitingu.
    Verði ofangreindar takmarkanir ekki samþykktar mun 1. minni hluti leggjast gegn samþykkt frumvarpsins.
    Að lokum bendir 1. minni hluti á að full ástæða er til þess að Alþingi taki fjáröflun Háskóla Íslands til umfjöllunar með það að markmiði að finna siðferðilega og ásættanlega lausn sem jafnframt treysti fjárhag skóla á háskólastigi.

Alþingi, 3. maí 1994.



Kristinn H. Gunnarsson.